Umsagnir FASK á fyrstu drög aðgerða í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030

Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 sem lauk í byrjun árs 2023. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun. Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu til 2030, eru 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlun ferðamálastefnu mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum.

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis. Sjá nánar á www.ferdamalastefna.is.

Á samráðsgátt Island.is er hægt að lesa fyrstu drög að aðgerðum í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030.

Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu fagnar því að fyrstu drög aðgerða í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu sé komin fram.

Hér á eftir koma athugasemdir FASK varðandi drögin

Sjálfbærni og orkuskipti

FASK tekur heilshugar undir mikilvægi þess að framkvæma þolmarkarannsóknir á áfangastöðum og landsvæðum.  Þær rannsóknir sem gerðar verði þurfa að vera samræmdar og markmiðasetning þarf að vera skýr, þar sem jafnvægi náist milli umhverfisþátta og efnahagsþátta og sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi.

Mikilvægt er að skipuleggja stoðþjónustu miðað við fjölda einstaklinga ( íbúa + gesti )  á svæðum í stað þess að horfa á íbúafjölda viðkomandi svæða.  Þannig geta fámenn sveitarfélög sem taka á móti miklum fjölda ferðamanna átt í erfiðleikum með að sinna lögbundnu hlutverki sínu til handa íbúum viðkomandi svæðis.  Þannig koma reglulega upp aðstæður þar sem t.d læknir þarf að sinna útköllum og skilja eftir ómannaða starfsstöð fyrir íbúa svæðisins. Sama getur átt við um aðra mikilvæga viðbragðsaðila svo sem lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir.  Mikilvægt er að efla stoðþjónustu þar sem langt er að sækja heilbrigðisþjónustu. Á einhverjum svæðum er þjónusta viðbragðsaðila komin að þolmörkum hvað þetta varðar. Öryggi íbúa og ferðamanna verður ekki tryggt nema koma þessum málum á góðan stað.

Orkuskipti í ferðaþjónustu er verðugt og mikilvægt markmið. Gæta þarf að því að gera raunhæfar áætlanir um orkuskipti og gefa fyrirtækjum raunhæfa fresti til að aðlaga rekstur sinn að breyttu rekstrarumhverfi. Hægt væri að hugsa sér að bjóða fyrirtækjum upp á skattaafslátt til að standa undir innleiðingu nýrra tækja og verkferla sem tryggja örugg orkuskipti. Taka þarf tillit til þess að geta til að fara í orkuskipti getur verið misjöfn af tæknilegum ástæðum. Það þarf að vera raunhæft og raunverulega tæknilega mögulegt áður en ráðist er í orkuskiptin sjálf. Auk þessa verður að veita fyrirtækjum eðlilegan aðlögunartíma sem er ekki íþyngjandi. Besti kosturinn væri líka að hafa hvata fyrir fyrirtæki til þess að fara í orkuskipti án þess að koma með íþyngjandi kvaðir hvað það varðar.  

FASK tekur heilshugar undir að styðja þurfi aðgerðir og athafnir sem tryggja að hagnaður af ferðaþjónustu verði eftir í nærsamfélaginu. Mikilvægt er að taka tillit til smárra og örsmárra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem byggja á mikilli sérstöðu og eru mikilvægur hlekkur í þeim samfélögum sem þau stunda sinn rekstur. Til að svo geti orðið þarf að færa ákvörðunarvald ásamt úthlutun gæða til nærsamfélaga svæðanna.  Þessu er t.d. hægt að ná fram með að láta sveitarfélögin ráða hvernig gæðum er ráðstafað ásamt þeim aðilum sem hafa umsjón með landi eins og t.d Vatnajökulsþjóðgarður. 

Sjálfbærnistefnur og vottanir

Þær þurfa að þjóna tilgangi. Þurfa að bæta rekstur og vera ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin þar sem mikill kostnaður og tími getur farið í þær og oft er eftirfylgnin engin. Þær mega ekki bara vera “góðar á blaði” og þurfa að vera jákvæðar fyrir fyrirtækin án þess að fyrirtækin verði neydd til að vera vottuð. 

FASK tekur undir athugasemdir SAF þar sem segir:

“…SAF taka því ekki undir tillögur að aðgerðum sem eru til þess fallnar að auka nú þegar íþyngjandi kröfur, lög og reglur, fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. SAF leggjast því meðal annars gegn tillögu um að „sjálfbærnistefnur og vottanir fyrirtækja í ferðaþjónustu verði hluti af rekstrarleyfi“. Fyrirtæki verða að sjá hag sinn í og hafa bolmagn til að setja sér sjálfbærnistefnu eða sækja sér slíka vottun, enda fylgir þeim kostnaður í formi fjár og tíma. Sé það sérstakur vilji stjórnvalda að stuðla að auknum fjölda sjálfbærnistefna- og vottana innan fyrirtækja í ferðaþjónustu ættu þau að skapa fyrirtækjum umhverfi til að ýta undir þá þróun, til dæmis með hvötum…”

Markvissari markaðssetning

FASK telur að það ætti að leggja meiri áherslu á “slow tourism”  , reyna að dreifa ferðamönnum betur um landið og fá þá jafnframt til að gista lengur á hverjum stað fyrir sig. Langar dagsferðir úr Reykjavík eru of stór hluti af ferðalögum í dag

Auk þess þarf að kynna landið betur fyrir stórum hóp ferðamanna sem halda að það sé hægt að keyra hringveginn á 4 dögum og sjá allt landið. Það viðhorf sumra ferðamanna að Ísland sé mun minna en raun ber vitni endurspeglast t.d. í að eldgos í Grindavík hafi mikil áhrif á restina af landinu. Þetta þarf að kynna betur.

Afnám gistináttaskatts

FASK mælist til þess að gistináttaskattur verði ekki felldur niður. Í stað þess ættu tekjur vegna hans að renna beint til þeirra sveitarfélaga þar sem skatturinn fellur til. Þetta er vel þekkt erlendis þar sem iðulega þarf að greiða „City Tax“. Ferðamenn eru því vanir að þurfa að greiða slíkan skatt. Með þessu væri hægt að tryggja að sveitarfélögin hafi tekjur vegna aukins álags á innviði sveitarfélaga. Þannig væri hægt að nýta skattinn til að efla nýsköpun og þróun ferðaþjónustu ásamt innviðauppbyggingu á þeim svæðum þar sem skatturinn fellur til.

Öryggi ferðamanna, ábyrgð, hlutverk og innviðir

FASK telur mjög mikilvægt að tryggja þurfi ásættanlegt öryggisviðbragð með eðlilegum viðbragðstíma bráðaviðbragðsaðila á þeim svæðum þar sem langt er að sækja heilbrigðisþjónustu og spítala. Það er hægt að gera t.d. með fastri heilsárs viðveru þessara bráðaviðbragðsaðila á þeim svæðum. Mikilvægt er að tryggja fjarskiptasamband þar sem að á löngum köflum um allt land er ekkert fjarskiptasamband og því getur það haft áhrif á hve erfitt sé að ná í viðbragðsaðila og aðstoð sem eykur enn frekar á viðbragðstíma.

Samgöngur

FASK telur mikilvægt að lögð verði áhersla á að auka öryggi og stytta vegalengda milli áfangastaða eins og kostur er. Þessu er m.a náð með að stytta vegalengdir á hringveginum og færa vegstæði með öryggi í fyrirrúmi. 

Bókun úr fundargerð FASK nr. 24 – þann 21.nóv 2023:

Stjórn FASK bendir á að flugvöllurinn í Keflavík er lykilþáttur í að hægt sé að reka ferðaþjónustu á Íslandi. Nú er mikilvægt fyrir stjórnvöld að gera athugun á því hvaða hagsmunir eru í húfi ef til lokunar Keflavíkurflugvallar kemur vegna ófyrirséðra jarðhræringa á Reykjanesskaga um ókomna tíð. Stjórn FASK telur mikilvægt að kannað verði hversu mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir vergri landsframleiðslu Íslands og hvaða áhrif það hefði á helstu þætti samfélagsins, svo sem skatttekjur ríkisins, heilbrigðis- og öldrunarmál, menntakerfi, félagskerfi, vegakerfi, o.fl mikilvæga þætti, ef ferðaþjónusta leggist af eða yrði rekin með mjög skertum hætti í óákveðin tíma. Stjórn FASK bendir á mikilvægi þess að gera heildstæða áætlun um uppbyggingu vara millilandaflugvalla sem geta þjónað sem leið til og frá landinu ef upp koma óviðráðanlegar aðstæður á Reykjanesskaga og þar með talið Reykjavík. Stjórn FASK bendir á að þegar sú vinna á sér stað verði horft til þátta eins og hvar best er að staðsetja millilandaflugvelli út frá, fjölda daga sem hægt er að lenda og taka á loft, veðurfari, öryggi gesta og flugáhafna, fjarlægð milli mikilvægra áfangastaða, samgangna til höfuðborgarsvæðisins og greiðfærni allan ársins hring.

Rannsóknarnefnd slysa í ferðaþjónustu og gagnagrunnur um slys og nær slys

FASK telur mikilvægt að halda gögn um þau slys sem verða og rannsaka til að geta hugsanlega komið í veg fyrir fleiri slys. Það þarf að hvetja fyrirtækin til að tilkynna slys. Með því er hugsanlega hægt að koma í veg fyrir þau í framtíðinni. Alvarleg slys eru yfirleitt skráð en það er ekki síður mikilvægt að vita af minniháttar óhöppum til að bæta hugsanlegar aðstæður sem urðu til þess að slys eða óhapp varð.

Endurskoðun á hlutverki og starfsemi Vakans. – Alþjóðleg viðurkenning á vottunarkerfi

FASK tekur undir að það þarf að fara betur yfir þessi gæðamál og að fá alþjóðlega viðurkenningu á Vakanum eða hugsanlega beina sjónum að öðrum alþjóðlega viðurkenndum gæðakerfum. Gæðakerfi eiga að vera hvatning til fyrirtækja til að gera betur en ekki kvöð.

 Menntunarkröfur á leiðsögumenn sem starfa í þjóðgörðum

Leiðsögumenn þurfa að sjálfsögðu að standast allar kröfur þegar kemur að öryggi. Það verður samt að passa að kröfurnar verði ekki það miklar að það verði hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Kröfur um réttindi og námskeið leiðsögumanna verða að vera réttmæt, passa verður að báknið verði ekki um of og að það séu bara sett „einhver“ námskeið sem skylda, námskeiðin verða að bæta við viðeigandi þekkingu miðað við þær ferðir sem verið er að fjalla um hverju sinni.

Eins þarf að ganga úr skugga um að þeir leiðsögumenn sem hafa starfað um árabil en eru e.t.v. ekki með öll þau réttindi eða námskeið sem til er ætlast geti gengist undir einhverskonar raunfærnimat

Markviss kynning og markaðssetning Íslands sem menningarlegs áfangastaðar

FASK telur mikilvægt að efla markvissa kynningu og markaðssetningu Íslands sem menningarlegs áfangastaðar. Markviss markaðssetning kveikir áhuga ferðamanna á áfangastöðum sem hafa ekki fengið eins mikla athygli og aðrir. Þetta mun einnig dreifa álagi á áfangastaði og dreifa ferðamönnum betur um landið. Það er mikilvægt að horfa til framtíðar varðandi markaðssetningu og kynningu á landinu og nýta tæknina til stafrænna kynninga. Upplýsingar um hátíðir og menningartengda viðburði þurfa að vera aðgengilegar fyrir ferðamenn. Ferðamenn vilja yfirleitt kynnast landi og þjóð og fá að upplifa okkar menningu. Þetta getur orðið til þess að ferðamenn eyði hér lengri tíma og njóti þess að taka inn sögu og menningu Íslendinga, í máli, myndum og mat.

 Stjórn Ferðamálafélags Austur-Skaftafellssýslu