Yfirlýsing og áskorun Aðalfundar FASK þann 25.sept 2024

Aðalfundur Ferðamálafélags Austur Skaftafellssýslu (FASK)
Aðalfundur FASK haldinn 25 september 2024 kl 17:00 í Golfskála Hornafjarðar, sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu og áskorun.
Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu (FASK) skorar á Vatnajökulsþjóðgarð að endurskoða ákvörðun sína er send var á umsækjendur um íshellaferðir veturinn 2024/2025, þess efnis að ekki verði gefin út leyfi til rekstraraðila fyrir íshellaferðum í október, heldur verði miðað við að leyfi til íshellaferða taki gildi í fyrsta lagi 1. nóvember og eftir að skilyrði og skilmálar rekstrarleyfis samninga verði uppfærðir af hálfu þjóðgarðsins. FASK fagnar því að Vatnajökulsþjóðgarður ætli að fara í endurskoðun á skilyrðum til handa þeim rekstraraðilum er hyggjast sækja um leyfi til íshellaferða til að tryggja gæði og öryggi gesta á svæðinu.
Hins vegar telur FASK að ákvörðun sú að ekki verði gefin út leyfi til íshellaferða á svæðinu í október hafi verið illa ígrunduð, ónauðsynleg, órökstutt og ekki gætt meðalhófs stjórnsýslulaga. Íshellaferðir hafa verið stundaðar í október undanfarin ár með öruggum hætti og án nokkurra vandkvæða. Ákvörðunin mun hafa í för með mikið rask í rekstri þeirra fyrirtækja sem hugðust hefja íshellaferðir í október. Ákvörðun þessi kemur líka fáum dögum áður en ferðir eiga að hefjast og setur því mörg fyrirtæki úr heimabyggð sem hafa í áraraðir boðið upp á íshellaferðir í október, á ábyrgan og öruggan hátt í slæma stöðu. Þar sem m.a. þau hafa gert ráðningarsamninga við starfsfólk, fjárfest í fasta fjármunum og farið út í lántökur, til að mynda til að tryggja starfsfólki sínu húsnæði og stærri rekstrarþætti eins og bifreiðar og búnað, markaðssetningu, sambönd við birgja o.fl. þætti.
Enn fremur eru margar fjölskyldur sem reiða sig á að geta boðið upp á öruggar íshellaferðir til að framfleyta fjölskyldum sínum, þar sem um er að ræða mörg lítil fjölskyldufyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru ekki með fjölþætta starfsemi, líkt og stærri fyrirtækin sem geta hæglega flutt starfsemi sína á önnur svæði til að mynda í Kötlujökul, sem líklega verður raunin. Það að taka einn af mikilvægustu rekstrar mánuðum lítilla fjölskyldufyrirtækja hér á svæðinu, úr umferð vegna óábyrgrar hegðunar örfárra fyrirtækja sem starfræktu íshellaferðir að sumarlagi á vestanverðum Breiðamerkurjökli getur haft verulega neikvæð og skaðleg áhrif á heildar rekstur þeirra félaga, sem verður að teljast mjög ómálefnalegt, óeðlilegt og ósanngjarnt.
FASK hvetur til þess að ákvörðun þessi verði endurskoðuð og leggur til að myndaður verði faghópur sem fenginn verði til að meta aðstæður og öryggi þeirra íshella/ísmyndanna sem fyrirtækin hyggjast fara í með sína gesti. Leggur FASK til að í faghóp þessum skulu vera t.d. aðilar frá Vatnajökulsþjóðgarði, Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG) og reyndir jökla- og íshellaleiðsögumenn.
FASK vill einnig benda á að ákvörðun sú að framlengja banni við íshellaferðum mun koma hvað harðast niður á þeim fyrirtækjum í heimabyggð sem hafa, eins og fyrr sagði, um áraraðir viðhaft öryggi og ábyrgð í sinni ferðamennsku og íshellaferðum og boðið eingöngu uppá íshellaferðir er aðstæður eru ákjósanlegar til slíkra ferða. Fyrirtæki innan FASK vilja í hvívetna starfa með og í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og hlúa að ferðamennsku á svæðinu með gæði og öryggi gesta í huga. Því er mikilvægt að samráði og samtölum sé haldið á lofti til að fyrirbyggja eins og hægt er slys, og að starfsemin farið ekki úr böndunum.
Virðingarfyllst fyrir hönd fundarins, stjórn Ferðamálafélags Austur-Skaftafellssýslu
Laufey Guðmundsdóttir
Tinna Rut Sigurðardóttir
Ágúst Elvarsson
Óskar Arason
Reynir Snær Valdimarsson
Haukur Ingi Einarsson