Yfirlýsing fundar sem haldinn var á vegum FASK þann 3.sept

Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu (FASK) lýsir yfir mikilli sorg með slysið sem varð á
Breiðamerkurjökli í lok síðasta mánaðar og fyrst og síðast vottum við fjölskyldu hins látna
samúð okkar á sama tíma og hugur okkar er með öllum þeim sem atvikinu tengjast. Það ber
sérstaklega að hrósa björgunarsveitum og viðbragðsaðilum fyrir það mikla þrekvirki sem þar
var unnið við erfiðar aðstæður.
Í fjölda ára höfum við bent á að leiðir til að tryggja að náttúra verði ekki fyrir skaða, öryggi
ferðamanna sé ekki ógnað og upplifun þeirra ekki spillt. Því miður hefur ekki verið hlustað á
sjónarmið okkar og við hörmum þá umgjörð sem skapast hefur í kringum atvinnutengda
starfsemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Umgjörð sem okkur finnst á stundum drifin áfram af
skammtíma hagsmunum fárra aðila. Þess ber að geta að stjórn FASK sem og aðrir
ferðaþjónustuaðilar hér á svæðinu hafa verið mjög mótfallin íshellaferðum að sumarlagi,
vegna öryggissjónarmiða. Einnig spilar þar inn í gæðastýring á þeirri vöru sem er fjöregg
okkar allra hér á svæði.
Það er ljóst að til að tryggja að slys sem þetta geti ekki endurtekið sig, er breytinga þörf á
fyrirkomulagi og utanumhaldi á ferðaþjónustu á svæðinu. Það er því skýlaus krafa okkar, að
FASK komi að þeirri vinnu sem framundan er þegar kemur að því að greina vandann innan
kerfisins og ákveða um úrbætur. Innan FASK eru frumkvöðlar, reynslumestu aðilarnir með
sérþekkingu á svæðinu, sem þekkja það best allra í ferðaþjónustunni.
Nú er mikilvægt að læra af öllum þeim mistökum sem átt hafa sér stað og leiddu til þessara
aðstæðna sem slysið varð í. Það er mikilvægt að það verði gert með aðkomu og í samráði
við heimaaðila. Engu verði undanskotið og ábyrgð ráðuneyta, Vatnajökulsþjóðgarður,
hagsmunaaðila, sveitarfélaga og fyrirtækja verði skoðuð ofan í kjölinn. Við skorum á yfirvöld
þjóðgarðsins og ríkisins að hefja þessa vinnu strax og á sama tíma kanna hvort annars
staðar á landinu fari fram sambærileg starfsemi sem þarf að taka tillit til í ljósi þessa
hræðilega atburðar sem hér átti sér stað.
Stjórn FASK væntir þess að yfirvöld muni ganga hratt til verks og kalla okkur að borðinu og
fylgja þannig eftir lögum um þjóðgarðinn sem kveða á um að “Leitast við að styrkja byggð og
atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar
gæða svæðisins.”
Stjórn FASK.
Undir þessa yfirlýsingu rita ásamt stjórnar FASK: Glacier Journey, Glacier Trips, Iceguide,
Naildit ehf, Glacier Adventure ehf, Marina Travel ehf, Jökulsárlón ehf, Hótel Skaftafell,
Ferjuklettar ehf, Glacier Travel ehf, Heading North ehf, Atlantsflug ehf, Gistiheimilið Hali ehf,
East coast Travel ehf, Of the beaten path ehf, Hrafnavellir Guesthouse, Ragnar Páll
Jónsson, Háfjall ehf, Dynjandi guesthouse.