Skýrsla stjórnar FASK starfsárið 2023-2024

Skýrsla stjórnar FASK starfsárið 2023 – 2024
Dagsett: 12. September á Hala í Suðursveit

Helstu verkefni á liðnu starfsári.
Stjórn FASK fundaði 7 sinnum á reglulegum fundum starfsárið 2023/2024. Haldnir voru 2
félagsfundir og kom félagið að málþingi um uppbyggingu innviða við Jökulsárlóns. Þar sem
ma. var rætt um áætlaða fjölgun ferðamanna næstu árin og hvaða áhrif sú þróun geti haft á
félagssvæði FASK, bæði út frá áskorunum og tækifærum sem þeim fjölda fylgir, svo sem
aukin þörf á innviðauppbyggingu og tækifæri til atvinnusköpunar og betri búsetuskilyrða.
Spurningar vöknuðu um hvort sú þróun sé í takt við þróun og uppbyggingu innviða á
svæðinu.

FASK sótti málþing á vegum Sveitarfélaganna í Skaftafellssýslum sem haldinn var
miðvikudaginn 17. Apríl. Málþingið fjallaði um þá innviði sem tengjast öryggi íbúa og
ferðamanna í Skaftafellssýslum. Þar sem auknu samstarfi verði komið á milli svæðanna.

Enn fremur voru haldnir fundir um fyrirhugaða uppbyggingu innviða Jökulsárlóns og var sú
vinna fyrirferðarmikil í starfsemi FASK á starfsárinu, þar sem fundir með
stjórnmálaflokkum, ráðherrum og atvinnumálanefnd, bæjarráði og bæjarstjóra áttu sér
stað um málefnið ásamt því að FASK fékk fundi með ráðgjafafyrirtækinu Deloitte og
aðstoðarmanni Umhverfisráðuneytisins þar sem farið var yfir málið út frá sjónarmiðum
heimamanna sem byggt hafa svæðið upp og sýnt frumkvöðlastarfsemi í vöruþróun o.fl.
þætti. Einnig tók FASK þátt í málþingi sem SVH hélt að frumkvæði FASK og kynnti
hugmyndir sínar fyrir Umhverfisráðherra.

Þess ber að minnast á að verulegir vankantar voru á því þegar markaðskönnun fór fram á
vegum Fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins, og
svo virðist sem lög hafi verið brotin, þar sem ekki var haft samráð við núverandi
rekstraraðila á Jökulsárlóni, sveitarstjórn eða Vatnajökulsþjóðgarð, en í lögum um nýtingu
lands í eigu ríkisins frá 2021, kemur fram í 10. Grein laganna að við forathugun skal, eftir því
sem við á, óska eftir umsögnum viðkomandi sveitarfélaga og annarra hlutaðeigandi
stjórnvalda. Upplýsa skal aðila sem reka atvinnutengda starfsemi á tilteknu svæði um að
áformað sé að ráðstafa landi með sérleyfis- eða rekstrarleyfis samningi með hæfilegum
fyrirvara áður en ráðstöfuninni er auglýst. Því var ekki við komið, heldur lásu núverandi
rekstraraðilar við Jökulsárlón, Vatnajökulsþjóðgarður og Sveitarstjórn Hornafjarðar, í
fréttamiðlum nokkrum dögum áður en tilskyldur tími til að skila inn hugmyndum vegna
markaðs könnunarinnar rann út. Það vakti svo furðu þegar stjórn FASK komst að því síðar á
fundi með fulltrúa Bláa lónsins að ráðgjafafyrirtækið Deloitte hafi hringt í forsvarmenn Bláa
lónsins og beðið þá um að skila inn gögnum í umrædda markaðskönnun. Því var ekki til að
dreifa hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum á félagssvæði FASK. Það er gjörsamlega óboðleg
stjórnsýsla og vinnubrögð ráðuneytanna.

Þann 3. september í skugga banaslyss sem varð á Breiðamerkurjökli 25. ágúst sl. hélt FASK
félagsfund um hvert við erum komin sem samfélag og hvert við stefnum. Lögð var fram
yfirlýsing sem finna má á heimasíðu FASK þar sem slysið er harmað. Í yfirlýsingu var einnig
farið fram á að vinnuumhverfi innan Vatnajökulsþjóðgarðs verði bætt til að svona slys geti
ekki endurtekið sig. Jafnframt var lögð áhersla á að tryggja langtíma hagsmunir íbúa
svæðisins umfram skammtímahagsmuna fárra rekstraraðila.

Félagsfundirnir voru vel sóttir og umræður góðar og málefnalegar.

Starfið var annasamt en engu að síður hefðbundið þar sem FASK fjallar um og ályktar um
málefni líðandi stundar er varðar ferðaþjónustu í Austur Skaftafellssýslu ásamt því að sinna
lögbundnum hlutverkum sínum hjá Markaðsstofu Suðurlands og Svæðisráði VJÞ. Ágúst
Elvarsson er fulltrúi FASK hjá Markaðsstofu Suðurlands og Tinna Rut Sigurðardóttir er
fulltrúi FASK hjá Svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs á Suðursvæði. Ágúst Elvarsson sinnti
einnig hlutverki áheyrnarfulltrúa Stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir hönd
Ferðamálasamtaka.

Mikilvægi FASK í samfélagsuppbyggingu í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Eins og fram kemur eru málefnin bæði mörg og jafnframt mikilvæg. Stjórn FASK hvetur alla
aðila í ferðaþjónustu á svæðinu til að gerast meðlimir FASK og styðja þannig við
áframhaldandi og frekari framþróun ferðamála í Austur Skaftafellssýslu. Það er afar
mikilvægt að félagið fái inn fleiri félagsmenn sem eru tilbúnir til að taka þátt í félagsstarfinu
og leggja málefnum lið með umræðu og uppbyggilegri gagnrýni. Félaginu er ætlað að
standa vörð um hagsmuni allra þeirra sem búsetu hafa í Sveitarfélaginu og leggja stund á
ferðaþjónustu. Því fleiri sem gerast aðilar að félaginu því sterkara umboð hefur FASK til
málefnalegrar umræðu og ályktana til stjórnvalda sem almennt fara með málefni
ferðaþjónustunnar. Hægt er að fara inn á heimasíðu félagsins www.ferdaskaft.is og nálgast
upplýsingar um hvernig hægt er að skrá sig í félagið.

Aðalfundur félagsins fer fram miðvikudagurinn 25. september n.k í Golfskála Hornafjarðar
kl 17:00 og eru allir velkomnir. Fundinum verða einnig gerð skil í gegnum google doc
meeting og þeir sem áhuga hafa á að fá sendan fundarlink eru beðnir um að óska eftir
slíkum link á faskstjorn@gmail.com

Helstu verkefni FASK næsta starfsárs

Verkefnin fram undan eru bæði krefjandi og spennandi. Stjórn FASK ætlar sér að hreyfa við
og hafa áhrif á mikilvæg mál er varðar hagsmuni ferðaþjónustunnar í Austur –
Skaftafellssýslu.

Ber þar helst að nefna áframhaldandi vinnu við innleiðingu gæðamála, málefni
þjóðgarðsins og þróun á úthlutun atvinnuleyfa innan garðsins, námskeiðshald til handa
ferðaþjónustuaðilum, málefni upplýsingamiðstöðvar, ásamt því að fjölga félagsmönnum
svo eitthvað sé nefnt. Stóra málið verður þó að tryggja það að sú uppbygging sem er orðin
löngu tímabær við Jökulsárlón verði byggð upp á forsendum heimaaðila og þeirra
frumkvöðla sem byggðu upp svæðið. Reglulegir fundir verða á sínum stað og munu
fulltrúar FASK halda áfram sínu góða starfi í stjórn Markaðsstofu Suðurlands, Svæðisráðs
Vatnajökulsþjóðgarðs og Stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Við hvetjum alla til að mæta á aðalfund félagsins sem haldinn verður í Golfskála
Hornafjarðar 25. september n.k kl 17:00 Allir eru velkomnir og hægt er að kynna sér helstu
málefni FASK á www.ferdaskaft.is

F.h Stjórnar FASK
Haukur Ingi Einarsson

Ákvörðun um félagsgjald
Stjórn FASK leggur til að félagsgjald verði óbreytt, þ.e. að félagsgjald fyrirtækja verði
12.500.- og að félagsgjald fyrir einstaklinga verði 6.250.-

2 atkvæði fylgja fyrirtæki og verða þá tveir aðilar að mæta frá fyrirtækinu á
aðalfundinn. 1 atkvæði fyrir einstaklinga.