Ferðamálafélag Austur Skaftafellssýslu

Lög félagsins


1. grein.

Félagið heitir Ferðamálafélag Austur Skaftafellssýslu. Það eru samtök einstaklinga, fyrirtækja og stofnana með lögheimili í Austur-Skaftafellssýslu.


2. grein.

Heimili og varnarþing er á Höfn.


3. grein.

Tilgangur félagsins er:

A. Að efla ferðaþjónustu á félagssvæðinu þannig að hún verði til sem mestra hagsbóta fyrir íbúa héraðsins og samfélagsins .

B. Að hvetja til nýsköpunar innan atvinnugreinarinnar á félagssvæðinu, styðja við og vernda hagsmuni atvinnugreinarinnar.

C. Að koma fram fyrir hönd félagsmanna með það að markmiði að vernda hagsmuni atvinnugreinarinnar í heild á félagssvæðinu.


4. grein.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná:

A. Með því að vinna að samræmingu og samvinnu í ferðaþjónustu á félagssvæðinu og beita sér fyrir sem fjölbreyttastri þjónustu við ferðafólk.

B. Með því að hvetja íbúa innan félagssvæðisins til þátttöku innan atvinnugreinarinnar og styðja við áform þeirra um hvers kyns uppbyggingu innan ferðaþjónustunnar enda falli slík uppbygging að heildarhagsmunum atvinnugreinarinnar innan félagssvæðisins.

C. Með því að afla upplýsinga um nýjungar í ferðamálum og stuðla að opinni og lifandi umræðu um ferðamál.

D. Með því að vekja athygli samfélagsins á gildi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar innan félagssvæðisins.

E. Með því að koma fram sem aðili innan samtaka ferðamálafélaga svo og á öðrum skyldum vettvangi eftir því sem tilefni gefst til. Í því sambandi skal félagið leitast við að eiga fulltrúa í sem flestum ráðum og nefndum þar sem hagsmunir atvinnugreinarinnar á félagssvæðinu eru til umfjöllunar.

F. Með annarri starfsemi sem talin er ferðamálum á félagssvæðinu til framdráttar.


5. grein.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra félagsfunda þess.


6. grein.

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í lok mars ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Fundurinn skal opinn öllum íbúum á félagssvæðinu og skal hann auglýstur með a.m.k. viku fyrirvara. 

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir skuldlausir skráðir félagar eða fulltrúar þeirra. 

Dagskrá aðalfundar er:

1. Lögð fram skýrsla stjórnar ásamt félagaskrá.

2. Lagðir fram reikningar félagsins endurskoðaðir.

3. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna.

4. Ákvörðun um árgjald.

5. Lögð fram starfsáætlun næsta árs.

6. Önnur mál.


7.grein.

Stjórn félagsins skipa 5 menn og 1 varamenn. Skulu þeir kjörnir til eins árs á aðalfundi hverju sinni, formann skal þó kjósa til tveggja ára. Formann skal kjósa sérstaklega á aðalfundi, aðrir í stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Stjórnin skal halda gerðabók fyrir aðalfundi, félagsfundi og stjórnarfundi. Hún skal halda félagaskrá sem sýni á hverjum tíma hverjir séu fullgildir aðilar að félaginu. Stjórnin annast inngöngu nýrra
félaga. Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Greiða skal árgjald félagsins eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund til þess að öðlast atkvæðisrétt á aðalfundi. Sé fyrirtæki aðili að félaginu fer það með tvö atkvæði á aðalfundi en einstaklingur fer með eitt atkvæði á aðalfundi.


8.grein.

Stjórnin skal boða til a.m.k. eins félagsfundar á hverju starfsári.


9. grein.

Stjórn getur skipað í nefndir til að sinna sértækum verkefnum á vegum félagsins.


10.grein.

Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Breytingar öðlast því aðeins gildi að 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði. 

Tillögum að lagabreytingum skal getið í aðalfundarboði.


11. grein.

Komi til ákvörðunar um slit félagsins, skal boðað til sérstaks fundar og er ákvörðun fundarins aðeins lögmæt, ef helmingur félagsmanna mætir og a.m.k. 2/3 hlutar fundarmanna samþykkja tillögu um félagsslit. Við félagsslit skulu eignir félagsins renna til Sveitarfélagsins Hornafjarðar eða annars félags, sem vinnur að sömu markmiðum og Ferðamálafélag Austur Skaftafellssýslu. Samþykkt á stofnfundi félagsins 10. febrúar 1985. Fyrst breytt á aðalfundi 14. apríl 2002 og síðan á aðalfundi 11. apríl 2003 og aftur á aðalfundi í mars 2019


Deila